Ég

Nú árið er liðið

Mér finnst tilvalið að nota þennan vettvang til að gera upp gamla árið, þó skrifin hér séu orðin frekar fátækleg.

 

2008

Á áramótum hef ég tilhneigingu til að líta yfir gamla árið og vilja halda í það aðeins lengur. Það er eins og árin líði hraðar með hverju árinu sem líður og það er erfitt að henda reiður á hvað varð um dagana sem rifnir voru af dagatalinu. 

Þessi áramót voru öðruvísi. Hvorki betri, né heldur verri. Bara öðruvísi. Það myndaðist einhver togstreita milli þess góða og þess vonda. 2008 - Annus Horibilis í augum sumra, árið sem kenndi okkur hvað við höfðum haft það gott í augum annara. Á árinu eignuðumst við Hjörtur fimmta barnið okkar. Yndislegan, heilbrigðan og hamingjusaman dreng. Hann, ásamt systkinum sínum, var ljósið sem lýsti upp árið sem leið.
Árið sem hófst nokkurn vegin eins og síðustu ár á undan. Fullt af bjartsýni og tilhlökkun fyrir þeim ævintýrum sem biðu okkar á næstu 12 mánuðum. En þetta ár endaði svo allt öðruvísi en við, bæði sem einstaklingar og sem þjóð, hefðum viljað. Ljós jólanna náðu ekki að lýsa upp huga og hjörtu fólksins í kringum okkur. Grunnskólabörn leituðu til skólahjúkrunarfræðinga vegna kvíða. Prestar höfðu varla undan við að ráðleggja hjónum í vanda. Allt of margir þurftu að leita á náðir hjálparstofnana. Reiði og sorg fylltu hugsanir margra.
Aðrir sögðust ætla að nýta sér árið sem dýrmæta lexíu. Þeir sögðust ætla að vera duglegri að stemma stigu við lífsgæðakapphlaupinu, vinna minna og eyða meiri tíma með fjölskyldunni. Kaupa færri flátskjái og keyra bílana sína lengur. En er þetta allt fólk sem virkilega lenti í hremmingum á árinu? Þeir sem unnu langa vinnudaga en höfðu samt varla í sig og á, geta þeir unnið minna til að eyða meiri tíma með börnunum? Eða þeir sem misstu vinnuna og eyða því miður allt of miklum tíma heimavið, finnst þeim þetta bara spurning um að sleppa flatskjáunum?
Ég efast um að það hafi verið flatskjáirnir sem komu þjóðinni í þá erfiðleika sem við þurfum saman að vinna okkur út úr. Það tóku nefnilega ekki allir þátt í góðærinu.
Nú eru aðstæður aftur orðnar þannig að fólk fagnar allri vinnu sem það getur fengið. Ungir menn sjá sjómennsku aftur í hyllingum. Allt hefur breyst!
Eða hvað? Það er nefnilega stóra spurningin sem brann á mér um áramótin. Enn sem komið er, er staða minnar fjölskyldu nánast óbreytt og fyrir það ber að þakka. Jú, við töpuðum einhverjum bréfum eins og svo margir aðrir. Grétum þau í smá stund en skildum svo að það þýddi ekki neitt.
En við höfum vinnu, húsnæði, heilsu og hamingju og þvílíkan fjársjóð í börnunum okkar. Nýja árið er bjart fyrir minn nánasta hring. En enginn maður er eyland og því snýst þetta ekki um "mig, frá mér til mín". Ég get ekki unað sátt við 10% atvinnuleysi, upplausn á heimilum og fjöldagjaldþrot. Sem betur fer hefur þjóðin okkar sýnt, að engin getur unað við það og því munum við berjast gegn slíku ástandi. Kannski neyðumst við samt til að sætta okkur við slíkt ástand tímabundið, en ég vona að við getum sameinast í þeirri hugsun að þetta sé einmitt bara tímabundið. Það er svo mikilvægt að halda í vonina og trúna að landið okkar blómstri aftur og börnin okkar geti verið stolt af því að vera Íslendingar.
Áramótaheitið mitt er að fara bjartsýn og jákvæð inn í nýja árið og trúa því að við getum öll, líka þeir sem verst hafa orðið úti,  farið bjartsýn og jákvæð inn í 2010. Það er sem betur fer ekki langt þangað til!

Kjósa!

Er nú ekki beinlínis virk hér eftir að ég fékk mér fésbók en kjósið hér ef þið eruð ekki búin að því

 www.iftheworldcouldvote.com


Danmörk var æði

Danmörk-08 104

Brosmildur í Danmörku í góða veðrinu :)


Ótrúlega spennandi tónleikar

Verur og Vættir

Jónsmessutónleikar

25. júní kl. 20

á Kjarvalsstöðum 

Hér er um sumarlega og mjög áheyrilega dagskrá að ræða með sönglögum eftir átta núlifandi tónskáld þ.e. Jón Þórarinsson, Jórunni Viðar, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson, John Speight, Hjálmar H. Ragnarsson, Hildigunni Rúnarsdóttur og Tryggva M. Baldvinsson.  Lögin eru samin á árunum 1939 til 2002.
 
Samstarf Ingveldar Ýrar og Guðríðar, sem kalla sig Inga og Gurry, nær aftur til ársins 2002 þegar þær fóru í tónleikaferð um þvert og endilangt Kanada.
 
Miðar eru seldir við innganginn og kosta kr. 1.500.-


Með hlaupabólu mánaðargamall

Jæja, það hlaut að koma að því. Jökull Logi fékk hlaupabólu á eins mánaðar "afmælinu". Það var svo sem ekki við öðru að búast í ljósi þess að bæði Katla Katrín og Hrafnhildur María haha verið með hlaupabólu eftir að hann fæddist.

Enn sem komið er er hann bara með eina bólu og vonandi helst það þannig. Hann er hress þó maginn virðist angra hann smá, en hitalaus og sprækur að öðru leyti. Það er gott að þetta verður yfirstaðið þegar við förum til Köben. :)


Frumburðurinn kominn heim

Jæja, þá er frumburðurinn kominn heim frá Spáni. Var þar í viku með fótboltaliðinu að æfa og keppa. Rosa fjör og hann er sólbrunn og sætur Smile

Mikið er gott að hafa aftur alla ungana mína heima InLove


Sjálfsbjargarviðleitni

 

Katla Katrín deyr sko ekki ráðalaus. Við köllum hana oftast pokadýrið okkar, enda pokaóð. Herbergið hennar er undirlagt af pokum. Hún setur aukaföt í poka áður en við förum út, labbar reglulega um húsið og garðinn með nesti í poka, geymir dótið sitt í pokum og laumast líka stundum til að stela snuðunum hans Jökuls og geyma þau í pokum inni hjá sér.

Um daginn kom hún með húfuna sína til mín og spurði hvort þetta væri húfan sín (Hrafnhildur á nefnilega alveg eins). Ég játti því, hún spurði margsinnis hvort ég væri alveg viss. Ég var voðalega ánægð að hún skyldi sjálf hafa vit á því að setja húfu á kollinn áður en hún færi út í sandkassa, enda frekar kalt í veðri.

Þegar við Hjörtur kíktum út til hennar stuttu seinna sáum við hvert hlutverk húfunnar var. Ekki var það að verma litla kollinn. Ó nei. Hana hafði vantað fötu og notaði hún því húfuna til að moka í. Stóð húfan á hvolfi, barmafull af sandi á sandkassanum. Okkur fannst þetta nú ansi krúttilegt og tókum meira að segja mynd af uppátækinu. Það má svo taka það fram að stuttu seinna leit ég út um gluggann og sá þá stuttu hvolfa úr húfunni (svona mesta sandinum) og skella henni svo á sig. Ha, ha.

Í fyrradag bað Katla svo pabba sinn um enn annan plastpokann. Hjörtur spurði hana hvað hún þyrfti að nota hann fyrir og svaraði Katla kát í bragði að hún ætlaði að fylla hann af vatni. Ekki var nú pabbinn hrifinn af því plani og sagði henni að maður ætti ekki að fylla poka af vatni af því að þá væri hætt við að allt færi út um allt. Sú stutta var nú ekki alveg sammála þessu en fór að snúa sér að öðru.

Stuttu seinna kom Hjörtur inn í borðstofu og sá þá að borðið og gólfið voru á floti í vatni. Katla Katrín hafði þá bara gert sér lítið fyrir og fundið skókassa (úr pappa, eins og þeir eru flestir) og fyllt hann af vatni og svo skilið eftir á borðinu.

Kannski hún fái bara viðurnefnið Katla í Kattholti :)


*Bráðn*

"Mamma, takk fyrir að fæða svona sætann lítinn bróður handa mér, og okkur öllum." Þetta sagði Hrafnhildur María í gær og fylgdi því koss og knús.

Fátt notalegra

Held að það sé fátt, ef nokkuð, notalegra en að kúra upp í sófa á svona rigningardegi, með lítinn sofandi unga í fanginu. Bara best!

Svooo sætur

Jökull-1.og 2.vikan 037

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband