Ég

Ástralíuferð á 3 milljónir.

Hvað ætli það kosti að leiga einkaflugvél til Ástralíu?

Ég er ekkert endilega á leiðinni að gera slíkt þó mig langi óneitanlega mikið að koma þangað. Fór bara að velta þessu fyrir mér þegar ég sá nýjan vetrarbækling Úrvals Útsýnar. Þar auglýsa þeir nefnilega Ástralíuferðir á tæpa hálfa milljón fyrir manninn. Það þýðir að slík ferð myndi kosta mína 6 manna fjölskyldu tæpar 3 milljónir. Vissulega er þar meira innifalið en bara flugið en mér er nokk sama. Mér finnst óskiljanlegt að nokkur maður kaupi ferðir á þessu verði. Þeir eru þó greinilega all nokkrir sem gera það ef marka má þá staðreynd að uppselt er í flestar spennandi vetrarferðir.

Verðið er eitt en hvað maður fær svo fyrir peninginn er annað.

Í fyrra ákváðum við fjölskyldan að skella okkur til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Kaliforníu. Ég leitaði að "hagstæðum" fargjöldum á netinu og byrjaði á Icelandair. Mér þóttu verðin þar há, eins og svo oft áður. Ekki var um önnur flugfélög að ræða sem fljúga beint frá Íslandi til Bandaríkjanna og því hóf ég að leita að öðrum möguleikum. Vildi samt ekki fara miklar krókaleiðir þar sem flug til Los Angeles frá Íslandi er alveg nógu langt fyrir, og hvað þá þegar ferðast er með fjögur börn, 1-11 ára. Ódýrast var fyrir okkur að fljúga með Icelandair til London og með American Airlines þaðan til Los Angeles. Verðumunurinn á því ferðalagi og því sem Icelandair gat boðið okkur var litlar 180 þús. krónur!!! Reyndar þurftum við að leggja á okkur 10 tíma lengra ferðalag en ég tel tímakaupið á því ferðalagi hafa verið ansi gott.

Rúmum 2 klukkutímum eftir að vélin lagði af stað frá London hafði samferðarkona okkar orð á því að þetta væri nú ansi langt ferðalag fyrir sig þar sem að hún hefði fyrst flogið til London frá Tel Aviv og því væru 10 tíma síðan hún lagði af stað að heiman. Við sögðum henni að við værum einnig búin að vera 10 tíma á leiðinni og þið getið ímyndað ykkur undrun hennar þegar við sögðum henni að við hefðum samt bara farið frá Íslandi, sem í þeim töluðu orðum var beint undir okkur.

Svona er víst að búa á "eyðieyju" í norðri!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband