9.11.2006 | 15:10
Við erum ekkert svo ólík
Smá hugleiðing Við erum ekkert svo ólík Þegar ég var lítil stelpa átti ég mér eitt uppáhaldslag á ensku. Það var lagið Bah, bah blacksheep og lærði ég það í enska skólanum mínum í Kúweit. Eftir að ég flutti aftur til Íslands var ég einu sinni fengin til að syngja þetta umrædda lag í útvarpsþætti sem fjallaði um börn sem búið höfðu erlendis. Allar götur síðan þá hefur mér þótt vænt um þetta lag og minningarnar sem það vekur. Minningar um góð ár í fjarlægu landi. Landi sem ég man á margan hátt takmarkað eftir en getur stundum verið svo ljóslifandi í huga mér.
Ég man svo vel eftir bakaranum okkar á horninu sem bakaði arabískt brauð í steinofni. Hann skellti brauðinu utan í veggina á ofninum og þar hékk það á meðan það bakaðist. Ég man líka svo vel eftir gamla manninum sem bauð okkur reglulega í mat af því að hann hafði keyrt utan í bíl samstarfskonu mömmu :o)
Ég man líka svo vel eftir mömmu að kenna mér að synda í sjónum og því þegar ég vann hattakeppni í leikskólanum með páskaungahattinum sem mamma hafði föndrað handa mér.Ég man eftir úlföldum í eyðimörkinni og mörkuðum fullum af gulli. Ég man að þegar maður fór í bað varð maður að bíða eftir því að vatnið kólnaði, þar sem að vatnstankarnir stóðu á þaki hússins og vatnið hitnaði alltaf ískyggilega. Ég man eftir hversdagsleika sem var mér svo eðlilegur þó hann væri gjörólíkur þeim hversdagsleika semég upplifði í fríum heima á Íslandi. Ég er oft spurð að því hvort það hafi ekki verið rosalega skrýtið að búa í arabalandi í tæp fimm ár. En staðreyndin er sú að börn hafa gríðarlega aðlögunarhæfni og finnst það sem þau alast upp við, nær undantekningarlaust, eðlilegt. Í Botswana, fjarlægju landi í Afríku býr lítil stúlka sem heitir Kutlwani. Á myndinni sem ég sá í dag af henni virkar hún hamingjusöm. Hún brosir sínu breiðasta og skartar fallegum sumarkjól. Hún hefur það gott og finnst líf sitt voða eðlilegt. Af því að hún þekkir ekki annað og er sem barn haldið hinni fyrr umræddu frábæru aðlögunarhæfni. Hún er munaðarlaus og býr í SOS barnaþorpi. Þetta finnst okkur Íslendingum oftast allt annað en eðlilegt. Við eigum erfitt með að ímynda okkur að það geti verið hamingjusamt og eðlilegt líf. En þrátt fyrir sorglegt upphaf lífs hennar þá er Kutlwani ótrúlega heppin. Hún á nefnilega styrktarforeldra víðs vegar um heiminn sem gera henni kleift að búa í húsi með mömmu og systkinum og lifa lífi ekki svo ólíku því sem við eigum að þekkja. Kutlwani er í dag 4 ára gömul, alveg eins og Hrafnhildur María dóttir mín. Þær eiga margt sameiginlegt. Þær ganga báðar í leikskóla þar sem þær læra stafina, litina og að telja. Þeim finnst gaman að planta blómum og rækta grænmetisgarðana sína. Þær hafa báðar gaman af að punta sig og fara í dúkkuleik og eitt það skemmtilegasta sem þær gera er að syngja. Hvað haldiði að uppáhalds lag Kutlwani sé? Ekkert annað en Bah, bah, blacksheep!!!
Athugasemdir
Hvað varð um öll greinarskilin mín?
Inga Rós Antoníusdóttir, 9.11.2006 kl. 15:15
þau hurfu út í veður og kaldan vind
Ólafur fannberg, 9.11.2006 kl. 19:37
Heldur betur. Og ég sem meira að segja reyndi tvisvar. Schade!
Inga Rós Antoníusdóttir, 9.11.2006 kl. 20:04
svona eru greinaskil alveg eins og veðurskil hehehehe
Ólafur fannberg, 9.11.2006 kl. 20:10
Já guð má vita hvar þessi vesalings börn væru niður komin ef ekki væri fyrir SOS barnaþorpin sem gera þessum börnum kleift að lifa sem næst því er getur kallast “eðlilegt líf”. Hvet alla sem geta til að gerast styrktarforeldrar.
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 11.11.2006 kl. 00:17
Mér hefur oft fundist að þeir sem alast upp og búa langt frá Íslandi landfræðilega séð eru miklu líkari okkur heldur en fólk í nágrannalöndunum. En ég man mjög vel eftir þessu viðtali Sverris Guðjónssonar við þig. Auðvitað söngst þú eins og engill en það sem situr ennþá betur í minninu er það hversu snögg og fljót þú varst að þýða vísuna og hikaðir hvergi.
Guðríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.11.2006 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.